154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég hef talað um að mismuna ekki þegnunum vegna efnahags og það er ekki hægt að tala um að verið sé að mismuna vegna efnahags þegar það eru eingöngu mjög vel efnaðir foreldrar sem hafa haft ráð á því að borga skólamáltíðir fyrir börnin sín. En ég ætla að snúa mér að hinum liðnum sem er húsnæðisliðurinn í vísitölunni, sem er verðbólgan. Ég vil gera að umtalsefni yfirlýsingar sérfræðinga um það að með því að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni gætum við strax höggvið stórt skarð í verðbólguþáttinn. Við þurfum ekki að bíða eftir einhverri heildstæðri úttekt á leigumarkaði eða annað slíkt, hæstv. ráðherra. Við getum með einu pennastriki, alveg eins og þegar húsnæðisliðurinn var settur inn, tekið hann af. Ég hef heyrt góðan vilja ýmissa ráðherra sem hafa komið hér með yfirlýsingar í fjölmiðlum um að þeir væru tilbúnir og reiðubúnir til að skoða það. En ég meina: Er ekki kominn tími til aðgerða, hæstv. ráðherra? Er ekki kominn tími til að standa í báða fætur og gera það bara öll saman — ég veit að við erum öll samstiga um það nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn — og hreinlega (Forseti hringir.) taka þennan húsnæðislið út úr vísitölunni og byrja á því að höggva í (Forseti hringir.) þessa verðbólgu sem er hreinlega orðin okkur fjötur um fót?